Stefnuskrá

Fjarðalistinn er félagshyggjuframboð. Við viljum manneskjulegra samfélag þar sem fólk hefur jöfn tækifæri til að lifa góðu lífi.

Aðrar útgáfur af stefnuskránni

auðlesin (íslenska)  |  enska  |  pólska

Velferðarmál

Fjarðalistinn vill byggja upp réttlátt samfélag þar sem mannréttindi íbúa eru virt og tryggt að aðstoð sé í boði þegar á henni er þörf. Við viljum styðja þau sem þurfa aðstoð til þátttöku í samfélaginu með virðingu að leiðarljósi. Sömuleiðis er fjölbreytileikinn styrkur Fjarðabyggðar. Við eigum að taka öllum fagnandi sem koma hingað í Fjarðabyggð, óháð uppruna – og stuðla að fjölmenningarsamfélagi. Við viljum:

  • Efla og þróa Sprett sem hefur það að markmiði að grípa fljótt inn í vanda barna með viðeigandi stuðningi og úrræðum í nærumhverfinu. 
  • Vinna að uppsetningu færanlegar Geðræktarmiðstöðvar.
  • Taka vel og skipulega á móti fólki á flótta og fólki af erlendum uppruna.
  • Fylgja eftir áætlun um bætt aðgengi fatlaðs fólks í byggingum sveitarfélagsins. 
  • Tryggja áframhaldandi vetrar- og sumarfrístund fyrir fötluð börn. 
  • Stuðla enn frekar að persónumiðaðri þjónustu við fatlað fólk.
  • Veita góða heima- og heilbrigðisþjónustu til að gera eldri borgurum og öryrkjum kleift að búa heima við mannsæmandi aðstæður.
  • Nýta stafræn samskipti til að auðvelda og styðja við virka þátttöku og sjálfstæði eldri borgara, sem og nýta velferðartækni til að stuðla að umbótum.
  • Fylgja eftir stefnumörkun um málefni aldraðra í samstarfi við eldri borgara.
  • Styðja við áframhaldandi heilsueflingu eldri borgara með skipulögðu starfi.
  • Efla félagsstarf eldri borgara og sporna gegn einmanaleika. 
  • Koma að skipulagðri dagvistun fyrir aldraða en slík þjónusta er þegar í boði á Breiðdalsvík. 

Jafnréttismál

Stöðugt þarf að vinna í jafnréttismálum og við sem samfélag megum ekki sofna á verðinum þegar kemur að þeim. Sem dæmi má nefna eru karlar talsvert fleiri en konur í Fjarðabyggð og laun kvenna eru almennt talsvert lægri en laun karla. Þetta er vandamál sem við verðum að horfast í augu við en þó má ekki gleyma öðrum jaðarsettum hópum sem einnig berjast fyrir auknu jafnrétti. Við viljum:

  • Auka fræðslu um jafnréttismál, bæði í skólastarfi og með opnum fundum og málstofum.
  • Að fjölbreytileiki samfélagsins sé hafður að leiðarljósi þegar störf eru auglýst. 
  • Vinna að áætlun við að koma upp kynjahlutlausri salernis- og búningsaðstöðu í byggingum Fjarðabyggðar.
  • Setja jafnréttismál í forgang í vinnu menningar- og nýsköpunarnefndar, sem og bæjarráðs og tryggja stöðugt samtal við atvinnulífið um jafnrétti.
  • Að atvinnuþróunar- og nýsköpunarstarf hafi aukið jafnrétti að leiðarljósi.
  • Tryggja að farið verði eftir gildandi jafnréttisáætlun Fjarðabyggðar.
  • Tryggja aðgengi íbúa af erlendum uppruna að íslenskukennslu, þeim að kostnaðarlausu.
  • Efla fræðslu og forvarnir á öllum stigum sveitarfélagsins gegn fordómum og mismunun.

Atvinnulíf og verðmætasköpun

Öflugt atvinnulíf mun áfram vera undirstaða velferðar í Fjarðabyggð. Fjarðalistinn vill halda áfram að styðja við öflugt atvinnulíf á svæðinu og skapa umhverfi sem ýtir undir nýsköpun í samfélaginu. Sömuleiðis er lykilatriði að tryggja næga og örugga raforku fyrir íbúa og atvinnulíf. Við viljum:

  • Áframhaldandi uppbyggingu á hafnarmannvirkjum til að styðja við öflugt atvinnulíf sjávarútvegs og útflutningsgreina.
  • Gera Fjarðabyggð að aðlaðandi staðsetningu fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki og stuðla að aukinni þróun og rannsóknum í öflugum iðnaði á svæðinu.    
  • Hafa frumkvæði að því að skoða hentugar staðsetningar fyrir fjarvinnuklasa í bæjarkjörnum Fjarðabyggðar.
  • Skoða möguleika þess að auka sveigjanleika hjá Fjarðabyggð til þess að vinna störf án staðsetningar.
  • Styðja við ferðaþjónustuaðila á Austurlandi og auka samstarf þeirra, sem og skapa grundvöll fyrir frekari uppbyggingu og fjölbreytni í greininni. 
  • Vera áfram leiðandi í stuðningi við menningu, listir og nýsköpun til að auka fjölbreytni atvinnutækifæra.
  • Styðja við háskóla, rannsóknar- og nýsköpunarsamfélag á svæðinu með það fyrir augum að skapa ný fyrirtæki og atvinnugreinar, sem aukið geta fjölbreytileikann í atvinnulífinu.
  • Vinna að því að Grænn orkugarður verði að veruleika.
  • Fjarðabyggð verði leiðandi í orkuskiptum.
  • Styðja við sjálfbæra matvælaframleiðslu og tryggja að neikvæðum umhverfisáhrifum verði haldið í lágmarki.
  • Þrýsta á frekari uppbyggingu ljósleiðara í þéttbýli sem er forsenda framþróunar og atvinnuuppbyggingar. Tengingu ljósleiðara verði lokið á suðurströnd Reyðarfjarðar og á norðurströnd Fáskrúðsfjarðar í dreifbýli.

Húsnæðis-, umhverfis- og skipulagsmál

Aukin uppbygging á húsnæði hefur sjaldan verið mikilvægari en nú. Sjálfbærnisjónarmið munu áfram spila stórt hlutverk í langtímasýn Fjarðabyggðar og mun náttúran halda áfram að njóta vafans. Við viljum: 

  • Halda áfram góðu samstarfi við leigufélögin Bríet og Brák, sambærileg félög og verktaka um frekari uppbyggingu húsnæðis í Fjarðabyggð.
  • Viðhalda afslætti af gatnagerðargjöldum og bjóða upp á dreifingu greiðsla að byggingu lokinni fyrir einstaklinga.
  • Tryggja áfram fjölbreytt úrval lóða til húsbygginga í Fjarðabyggð.
  • Auðvelda leit að lausum lóðum í Fjarðabyggð og straumlínulaga úthlutunarferli lóða.
  • Vinna að fjölgun búsetuúrræða fyrir aldraða og leggja áherslu á að fjölga litlum og meðalstórum íbúðum.
  • Vinna að skipulagsmálum er varða Grænan orkugarð.
  • Halda áfram að styðja við gjaldfrjálsar almenningssamgöngur innan Fjarðabyggðar.
  • Gera langtímastefnu um fráveitumál.
  • Vinna að breyttri stefnu í úrgangsmálum.
  • Draga úr sóun og lágmarka plastnotkun.
  • Halda áfram kynningu á flokkun sorps fyrir íbúa, fyrirtæki og skóla þeim að kostnaðarlausu til að stuðla að aukinni umhverfisvitund.
  • Að sveitarfélagið sé fyrirmynd og leiðandi í notkun umhverfisvænna farartækja.
  • Vinna að gerð göngu- og hjólreiðastíga í Fjarðabyggð. 
  • Gera langtímaáætlun um uppbyggingu, endurbætur og fyrirbyggjandi viðhald mannvirkja, gatna og veitna.
  • Fylgja eftir metnaðarfullri umhverfis- og loftlagsstefnu Fjarðabyggðar sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili.

Fræðslumál

Á síðustu árum hefur tækniþróun verið ör og miklar breytingar orðið á samfélaginu sem hafa haft áhrif á skólastarfið. Mikilvægt er að skólasamfélagið í Fjarðabyggð þróist samhliða kröfum samfélagsins og taki breytingum í takti við nýja þekkingu. Við viljum því meðal annars:

  • Fylgja eftir metnaðarfullri fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar sem um 500 einstaklingar í Fjarðabyggð mótuðu á síðasta kjörtímabili. 
  • Þróa áfram virkt lærdómssamfélag innan skóla, frístundar og félagsmiðstöðva, þar sem starfað er í anda heilsueflandi og barnvæns samfélags með áherslu á aukna samþættingu og samvinnu ólíkra skólagerða.
  • Þróa kennsluhætti í takt við tækniframfarir og framfarir í  samfélaginu með fjölbreyttum, skapandi og stafrænum kennsluaðferðum og námsumhverfi. 
  • Auðga nám nemenda með tækni sem kemur til móts við misjafnar þarfir þeirra. 
  • Efla og auka veg þverfaglegrar kennslu, nýsköpunar, verk- og listgreina í skólastarfi með sjálfbærni að leiðarljósi.
  • Styrkja stoðþjónustu skólanna og taka mið af þjónustuþörf nemenda. 
  • Auka þverfaglega þekkingu með auknu samstarfi milli skóla, skólastiga, Austurbrúar og háskólasamfélagsins. 
  • Efla fræðslu innan skólasamfélagsins með sérstaka áherslu á hinsegin málefni, m.a. í samstarfi við hinsegin félagasamtök svo stuðlað sé að auknu jafnrétti.  
  • Styrkja forvarnir með aukinni jafnréttis-, kyn- og kynjafræðslu í skólum þar sem lögð er áhersla á fjölbreytileika nemenda svo hægt sé að skapa þeim öruggt umhverfi innan skólanna.
  • Vinna áfram markvisst gegn hvers kyns óréttlæti, svo sem mismunun, fordómum, einelti, áreitni og ofbeldi í skólastarfinu.
  • Tryggja áframhaldandi metnaðarfullt starf í tónlistarskólunum og leita leiða til að efla samstarf þeirra á milli og við aðrar skólastofnanir.
  • Stuðla áfram að góðu aðgengi að tónlistarnámi og huga sérstaklega að börnum af erlendum uppruna. 
  • Skýra verklag við móttöku og kennslu barna af erlendum uppruna. Leita leiða til að veita þeim kennslu í eigin móðurmáli og fjölbreyttan stuðning í íslenskunámi, m.a. með samstarfi við Fjölmenningarsetur.
  • Áframhaldandi úrbætur og viðhald á skólalóðum og tryggja jafnt aðgengi að þeim.
  • Fylgja eftir aðgerðum í styrkingu leikskólastigsins og standa þannig vörð um öflugt starf í leikskólum og tryggja að Fjarðabyggð haldi áfram að vera í fremstu röð fyrir barnafólk.

Íþróttir, menning og tómstundir

Fjarðalistinn leggur áherslu á öflugt íþrótta- og tómstundastarf, bæði í forvarnarskyni og til að stuðla að heilbrigðara og skemmtilegra samfélagi. Við viljum vera leiðandi í stuðningi við menningu, listir og nýsköpun. Menningarstarfsemi er hjarta samfélagsins – hún gerir lífið skemmtilegra, samfélagið fjölbreyttara og í henni felst mikil verðmætasköpun, bæði samfélagsleg og fjárhagsleg. Við viljum:

  • Gera endurbætur á íþróttamannvirkjum í Fjarðabyggð samkvæmt ástandsgreiningu. 
  • Efla tómstundir fyrir einstaklinga sem finna sig ekki í hefðbundnum íþróttum. 
  • Reiðhjóla- og göngustíg á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. 
  • Ljúka hönnun og uppbyggingu göngu- og hjólastíga í Fjarðabyggð, sérstaklega í byggðakjörnum þar sem göngu- og hjólastígum er ábótavant. 
  • Klára endurbætur á Fjarðabyggðarhöllinni.
  • Efla samstarf á milli skóla, æskulýðsfélaga, frístundaheimila og félagsmiðstöðva.
  • Ljúka viðgerð við innisundlaug Reyðarfjarðar.
  • Lagfæra Eskifjarðarvöll svo hann standist kröfur sem keppnisvöllur; nýtt undirlag og gras.
  • Hvetja til viðameira samstarfs á milli íþróttafélaga sem nú starfa í Fjarðabyggð. 
  • Halda áfram að efla Menningarstofu Fjarðabyggðar.
  • Styðja af krafti við nýsköpun og listastarfsemi í sveitarfélaginu.
  • Styðja áfram við uppbyggingu og starfsemi Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði.
  • Halda áfram að þróa almenningssamgöngur í tengslum við íþrótta- og tómstundastarf.
  • Auka möguleika ungs fólks á að nýta húsnæði sveitarfélagsins til félagsstarfs.
  • Halda áfram að efla faglegt starf félagsmiðstöðva og gera endurbætur á aðstöðu í samráði við ungmennaráð.
  • Endurskoða opnunartíma safna í Fjarðabyggð í tengslum við ferðaþjónustu í Fjarðabyggð.
  • Vinna að áframhaldandi uppbyggingu Stríðsárasafnsins, efla það og gera að viðurkenndu stríðsárasafni Íslands.

Lýðræði og stjórnsýsla

  • Styrkja íbúalýðræði, t.d. með því að forgangsraða nýjum framkvæmdum í auknu samráði við íbúa.
  • Endurskoða verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
  • Tryggja að upplýsingar um þjónustu og fréttir sveitarfélagsins séu aðgengilegar.

    Að auki ætlum við að berjast af krafti fyrir:

    • Því að stjórnvöld haldi áfram sjálfbærri innviðauppbyggingu í orkumálum.
    • Áframhaldandi bótum á samgöngum, sérstaklega m.t.t. Suðurfjarðavegar og leiða inn í Mjóafjörð.
    • Ríkið fjölgi hjúkrunarrýma í sveitarfélaginu. 
    • Að skipulagsvald fjarða og víkna fari til sveitarfélaga.
    • Að framkvæmdum við ofanflóðavarnir verði haldið áfram af fullum krafti.
    • Eflingu sveitarstjórnarstigsins, m.a. með því að tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð.