Sagan

Fjarðalistinn var stofnaður á Eskifirði 17. mars árið 1998.

Saga Fjarðalistans

Félagshyggjufólk úr ýmsum áttum

Að stofnun Fjarðalistans stóð félagshyggjufólk sem sumt hafði áður tekið þátt í störfum ýmissa stjórnmálaflokka. Eins tók þátt í stofnun listans fólk sem ekki hafði áður haft afskipti af stjórnmálum. Á þessum tíma töldu margir brýnt að brjóta upp flokkspólitískt framboðsform á sviði sveitarstjórnarmála og vildu taka þátt í myndun sterkra samtaka sem ekki tengdust skipulagslega neinum stjórnmálaflokki sem starfaði á landsvísu.

Hagsmunir sveitarfélagsins

Það hefur sýnt sig að samtök eins og Fjarðalistinn hafa ýmsa góða kosti. Væringar á sviði landsmála snerta starf hans lítið og forsvarsmenn hans hafa átt auðvelt með að vinna með stjórnmálamönnum úr öllum flokkum ef þess gerist þörf. Störf Fjarðalistans hafa ávallt tekið mið af hagsmunum sveitarfélagsins en ekki tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem stjórnmálaflokkarnir á landsvísu hafa barist fyrir.

Opin samtök

Fjarðalistinn hefur ávallt starfað sem opin samtök. Ekki er haldin félagaskrá en allir fundir og samkomur listans eru auglýstir og eru opnir öllum þeim sem aðhyllast þau viðhorf sem listinn stendur fyrir. Fjarðalistinn hefur ávallt haft sjónarmið félagshyggju að leiðarljósi og allt frá stofnun hefur hann gegnt leiðandi hlutverki í bæjarstjórn. Listinn hefur byggt stefnu sína á stefnuskrá sem mótuð hefur verið fyrir hverjar kosningar á sérstökum stefnuþingum.

Stefnuyfirlýsing

Á stofnfundi listans var samþykkt almenn stefnuyfirlýsing.  Í hvert sinn sem kosningastefnuskrá hefur verið mótuð hefur þessi almenna stefnuyfirlýsing verið höfð til hliðsjónar. Þessi almenna stefnuyfirlýsing er svofelld:

 • Fjarðalistinn byggir á hugsjónum um réttlátt samfélag þar sem jöfnuður, jafnrétti og virkt lýðræði er í fyrirrúmi.
 • Fjarðalistinn vill standa vörð um frelsi einstaklingsins til að þroskast og taka þátt í að móta umhverfi sitt á félagslegum grunni.
 • Fjarðalistinn vill styrkja fjölskyldur til að sinna uppeldishlutverki sínu, efla skólana í sveitarfélaginu og gera þá samkeppnishæfa við það sem best gerist.
 • Fjarðalistinn vill tryggja aðgang allra að hollri íþrótta- og tómstundaiðju.
 • Fjarðalistinn vill hlúa að fjölbreyttu menningar- og félagslífi sem mikilvægum þætti mannræktar.
 • Fjarðalistinn vill auka áhrif fólks með valddreifingu og virku upplýsingastreymi svo og tryggja að ákvarðanir verði teknar á félagslegum grundvelli með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
 • Fjarðalistinn vill leggja áherslu á jafnrétti kynjanna með skýrri stefnu og virkum aðgerðum er jafni stöðu karla og kvenna.
 • Fjarðalistinn vill að öllum verði tryggð góð félagsleg þjónusta, óháð búsetu og leggur áherslu á að framlag aldraðra til samfélagsins verði virt.
 • Fjarðalistinn vill að gjalddtöku fyrir þjónustu sveitarfélagsins verði stillt í hóf.
 • Fjarðalistinn leggur áherslu á umhverfisstefnu sem tekur mið af nútímalegum viðhorfum til umhverfismála.
 • Fjarðalistinn leggur áherslu á öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.
 • Fjarðalistinn leggur áherslu á að fyrirtækjum verði skapað hvetjandi og samkeppnishæft starfsumhverfi.
 • Fjarðalistinn leggur áherslu á að góð heilbrigðisþjónusta sé ein af forsendum byggðar og að tryggja verði áframhaldandi uppbyggingu þjónustunnar.
 • Fjarðalistinn leggur áherslu á markvissa fjármálastjórnun þar sem saman fari ábyrgð og festa en jafnframt áræði til nýrrar sóknar.

svipmyndir úr starfi fjarðalistans

Myndir úr starfi Fjarðalistans frá stofnun.  

Um Fjarðalistann

Stjórn 

Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður
Þorvarður Sigurbjörnsson, gjaldkeri
Björgvin Valur Guðmundsson, ritari
Sigríður Margrét Guðjónsdóttir, meðstjórnandi
Valdimar Másson, meðstjórnandi

Fjarðalistinn 

Mýrargata 33, 740 Neskaupstaður