Fjárhagsáætlunarvinnu þessa árs lauk nú í gærkvöldi þegar fjárhagsáætlun 2023 var samþykkt í seinni umræðu í bæjarstjórn. Fulltrúar Fjarðalistans vilja þakka öllu starfsfólki Fjarðabyggðar sem lögðu á sig mikla vinnu við að setja hana saman en einnig viljum við koma á framfæri þökkum til alls nefndarfólks fyrir þeirra góðu vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar.
Vinnan við fjárhagsáætlunargerðina var mjög athyglisverð og er alveg ljóst að miklar áskoranir eru í rekstri sveitarfélaga á Íslandi. Stærstu áskoranir sem öll sveitarfélög standa fyrir eru sífelldar vaxtahækkanir samhliða mikilli verðbólgu en einnig hefur vanfjármögnun ríkisins á ýmsum verkefnum haft sín áhrif. Þessar áðurnefndu ástæður undirstrika þá nauðsyn að við höldum áfram að sýna ábyrga fjármálastjórn og það teljum við að sé gert í fjárhagsáætlun næsta árs.
Þrátt fyrir þær áskoranir sem eru og verða áfram í rekstri sveitafélagsins þá höfum við lagt áherslu á að halda áfram að hlúa að velferð fjölskyldufólks sem og að tryggja að ekki komi til skerðingar á þeirri góðu þjónustu sem er til staðar í sveitarfélaginu. Fjarðabyggð er og verður áfram vel samkeppnishæft við önnur sveitarfélög og var sú ákvörðun tekin í upphafi að velta ekki hinum miklum verðlagshækkunum yfir á íbúa. Við getum verið stolt af því að í sveitarfélaginu eru gjöld fyrir skóladagvistun, leikskóla og tónlistarskóla með þeim lægstu á landinu en einnig að þeirri staðreynd að í Fjarðabyggð eru gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Mikil hækkun fasteignamats í Fjarðabyggð er af hinu góðu og hefur leitt til uppbyggingar í sveitarfélaginu en hún hefur þau áhrif að fasteignaskattur hækkar hjá íbúum og var því tekin sú ákvörðun að lækka álagningarstuðul fasteignaskatts til að koma móts við þá hækkun.
Við munum halda áfram að leita leiða til hagræðingar innan sveitarfélagsins með það markmið að bæta þjónustu þar sem það er hægt og er nýsamþykkt fjárhagsáætlun fyrsti áfanginn í þeirri vegferð að styrkja rekstrargrunn sveitarfélagsins og halda áfram að búa til sveitarfélag sem gott er að búa í.