Fjarðalistinn og Framsókn undirrituðu málefnasamning á föstudaginn 3. júní og mynduðu þar með meirihluta í bæjarstjórn. Málefnasamningurinn hefur verið í vinnslu undanfarnar vikur og erum við gríðarlega ánægð með útkomuna. Við teljum málefni Fjarðalistans fá þar mjög góðan hljómgrunn og verður ánægjulegt að vinna eftir honum á komandi kjörtímabili.

Eins og kom fram í kosningarbaráttunni og hefur alla tíð legið fyrir, gengum við óbundin til kosninga og öll orð um annað ekkert nema tilbúningur. Við í Fjarðalistanum vorum hreinskilin með það að við myndum horfa til samstarfs með þeim sem höfðu félagshyggju í fyrirrúmi. Meirihlutinn hélt í kosningunum og því eðlilegt að það samstarf væri skoðað, enda hafði samstarf síðustu 4 ára gengið vel og einkennst af trausti og virðingu. Samhljómur á milli flokkana hefur verið mikill í viðræðum síðustu vikna og var því tekin sú ákvörðun að Fjarðalistinn og Framsókn myndu starfa áfram saman. Eins og kveðið er á í samningnum munu flokkarnir starfa saman áfram með heilindi samvinnu, jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi.

Málefni fjölskyldunnar verða áfram í fyrirrúmi hjá sveitarfélaginu og má sem dæmi nefna að á kjörtímabilinu verður lögð sérstök áhersla á fræðslumál með þjónustu við alla nemendur,  Sprettur verður endurskoðaður með það að markmiði að efla þjónustuna, þróað virkt lærdómssamfélag innan skóla, frístundar og félagsmiðstöðva. Komið verður upp kynjahlutlausri salernis- og búningsaðstöðu í byggingum Fjarðabyggðar og gerður verður samningur við Samtökin ‘78 um fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks Fjarðabyggðar og nemenda. Einnig má nefna að haldið verður áfram að bæta aðgengi fatlaðs fólks að stofnunum sveitarfélagsins og stuðlað að persónumiðaðri þjónustu. Unnið verður að mótun Geðræktarmiðstöðvar til að styrkja öryrkja og fólk utan vinnumarkaðar í samstarfi við fagaðila.

Mál eldri borgara verða einnig tekin sérstaklega til skoðunar, t.d. með áframhaldandi eflingu öldungaráðs en einnig verður lögð áhersla á uppbyggingu dagdvalar í sveitarfélaginu og unnið að mögulegri aðkomu sveitarfélagsins að frekari uppbyggingu húsnæðis sem hentar eldri íbúum. Mikill þungi verður lagður í viðræður við stjórnvöld um frekari uppbyggingu á hjúkrunarrýmum í Fjarðabyggð og áhersla lögð á hjúkrunardeildina á Norðfirði en aðstæður þar eru ekki á nokkurn hátt boðlegar. Áfram verður lögð áhersla á lýðheilsu eldri borgara en sú vegferð er þegar hafin.

Umhverfismálum verður áfram gert hátt undir höfði. Unnið verður með umhverfis- og loftlagsstefnu sem innleidd var á síðasta kjörtímabili. Græn skref verða áfram innleidd og sérstök áhersla lögð á úrgangsmál. Hvað matvælaframleiðslu varðar verður stutt við landbúnað og fjölbreytta matvælaframleiðslu heima í héraði með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Áhersla verður lögð á hringrásarhagkerfið í Fjarðabyggð og mun flokkun og endurnýting styðja við aukna sjálfbærni.

Unnið verður áfram að uppbyggingu á Grænum orkugarði og áfram staðið vörð um öflugt atvinnulíf í Fjarðabyggð með áherslu á nýsköpun, eflingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og áframhaldandi fjárfestingu í höfnum Fjarðabyggðar í takt við uppbyggingu og þróun í sjávarútvegi

Mikill þungi verður settur áfram í húsnæðismál, t.d. með afslætti af gatnagerðargjöldum við tilbúnar götur í sveitarfélaginu, tryggt lóðaframboð og áframhaldandi samstarfi við félögin Bríet og Brák til að fjölga almennum leiguíbúðum.

Þetta eru einungis nokkur dæmi um það sem finna má í málefnasamningnum en hann má lesa í heild sinni hér: Málefnasamningur.