Eitt af stærstu samfélagslegu verkefnum næstu ára er að búa vel að eldra fólki. 

Málefni eldri borgara í Fjarðabyggð eru mikilvægur grunnur að sterku og blómlegu samfélagi. Á kjörtímabilinu hófst stefnumótun um málefni aldraðra, enda teljum við nauðsynlegt að móta skýra framtíðarsýn í málaflokknum og vinna markvisst að framþróun á breiðum vettvangi sem snýr að því að auka lífsgæði eldri borgara. Stefnan verður að vera lifandi og taka mið af samfélagslegri þróun og þörfum íbúa hverju sinni. Mikilvægt er að vinna stefnumótunina í samvinnu við eldri borgara, þannig að áhersla í þjónustu sé í takt við þarfir og óskir þeirra sem hana nota. 

Þjóðin er að eldast og brýnt að stefnumótun og undirbúningsvinna taki mið af því. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands árið 2020 var hlutfall landsmanna 65 ára og eldri 14,4%. Hlutfall eldra fólks í Fjarðabyggð er í takt við landið allt. Hagstofa Íslands hefur gefið út miðspá um mannfjölda íslendinga til framtíðar og ef spár ganga eftir verður hlutfall landsmanna 65 ára og eldri orðið 25% árið 2064. 

Á síðasta ári sagði Fjarðabyggð upp samningi við SÍ um rekstur hjúkrunarheimilanna Uppsala og Hulduhlíðar. Það var gert í kjölfar árangurslausra viðræðna við ríkisvaldið vegna viðvarandi hallareksturs hjúkrunarheimilina sem sveitarfélagið sat uppi með. Við þessi skil stendur eftir að Fjarðabyggð hefur greitt um 270 milljónir með þeim rekstri. Bæjaryfirvöldum í Fjarðabyggð þótti miður að þurfa að fara í þessar aðgerðir, en skýringin er sú að daggjöldin sem standa eiga undir rekstrinum endurspegluðu ekki raunverulegan kostnað og ekki var vilji hjá ríkisvaldinu til að koma á móts við Fjarðabyggð vegna þessa, en heilbrigðismál eru á forsjá ríkisins. Í Fjarðabyggð er engu að síður enn þörf á hjúkrunarrýmum og þörfin á bara eftir að aukast. Fjarðalistinn hefur barist fyrir því að ríkið uppfylli þá þörf og það munum við halda áfram að gera þar til öllum eldri borgurum í Fjarðabyggð býðst sú þjónusta sem ríkinu er ætlað að veita. Fólk á að hafa val um að búsetu óháð aldri og þjónustuþörfum og það er mikilvægt að ríkisvaldið dragi ekki úr tækifærum fólks til að eldast í heimabyggð. 

Til þess að búa vel að öldruðum þarf að bjóða upp á búsetuform við hæfi hvers og eins með einstaklingsmiðaðri þjónustu. Aukin uppbygging á húsnæði hefur sjaldan verið mikilvægari og þá sérstaklega þegar litið er til framboðs á húsnæði sem hentar eldri kynslóðum. Lögð verður áhersla á að fjölga litlum og meðalstórum íbúðum. Auka þarf úrræði sem stuðla að því að eldra fólk geti búið sem lengst heima og það er gert til dæmis með rekstri á dagdvalar/dagþjónustu í samvinnu við ríkið. Dagdvöl er stuðningsúrræði fyrir eldra fólk sem býr í heimahúsum en þarf á meiri þjónustu og stuðning að halda. Við teljum einnig brýnt að auka aðgengi að velferðatækni bæði í þjónustu og inn á heimilum eldri borgara. 

Tekjuviðmið og afsláttur eldri borgara og öryrkja af fasteignaskatti var hækkaður svo um munar á kjörtímabilinu. Einnig er nú í fyrsta sinn boðið upp á garðslátt og snjómokstur fyrir þann hóp og er sú þjónusta gjaldfrjáls fyrir tekjulág heimili.

Við eigum og verðum að byggja upp samfélag þar sem er gott að eldast. Við í Fjarðabyggð erum svo lánsöm hér býr fjölbreyttur hópur eldri borgara og það er mikilvægt að við sníðum þjónustuna með það fyrir augum. Við ætlum áfram að skapa öldruðum fjölbreytt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. 

Höfundur er bæjarfulltrúi og skipar 2. sæti á lista Fjarðalistans.