Félagstengsl er einn af grundvallarþáttum mannlegs lífs og þau glæða líf okkar merkingu. Að tilheyra hópi eða samfélagi getur haft mikið forvarnargildi þegar kemur að depurð og dregur að auki úr einmanakennd. Sterk félagstengsl geta því haft öflug áhrif á lífsgæði til langtíma.

COVID-19 hefur snert lífsgæði flestra á einn eða annan hátt og voru umskiptin flestum erfið, að þurfa að fara úr daglegu lífi í að lúta reglum um sóttvarnir. Frá því heimsfaraldurinn hófst hefur kvíði, félagsleg einangrun og einmanaleiki aukist í samfélaginu.

Til að mynda máttu börn og ungmenni ekki mæta í skóla og tómstundir og þurftu því að draga verulega úr félagslífi sínu. Þetta hefur komið sérstaklega hart niður á börnum sem búa við erfiðar heimilisaðstæður. Mörg okkar þurftu að færa vinnu sína heim og víða var lítið um félagstengsl á vinnustöðum þegar faraldurinn var í algleymingi. Einnig áætlar alþjóðavinnumálastofnun að um 3,1 miljarður vinnandi fólks í heiminum hafi orðið fyrir beinum áhrifum af heimsfaraldrinum, þá ýmist i formi breyttra vinnuaðstæðna, minnkaðs starfshlutfalls eða jafnvel uppsagna með tilheyrandi áhrifum á andlega líðan fólks.

Einangrunin sem aldrað fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma bjuggu við á þessu tímabili var gríðarleg. Markmið aðgerðanna var auðvitað að vernda fólk í áhættuhópi og eina leiðin til að draga úr smithættu var að halda sig til hlés og umgangast sem fæst fólk. Aðgerðirnar voru strangar en nauðsynlegar, en þeim mun nauðsynlegra er að hið opinbera styðji fólk í að glíma við afleiðingar þessa erfiða tímabils.

Sú tíð er sem betur fer liðin þar sem erfiðleikum og vanlíðan var pakkað vandlega niður og haldið áfram án þess að hlúa að fólki á erfiðum tímum. Í dag búum við sem betur fer yfir betri þekkingu sem gerir okkur kleift að vinna úr áföllum og erfiðleikum á fjölbreyttan og einstakingsmiðaðan hátt, hvort sem um er að ræða áföll sem dynja á samfélaginu öllu eða einstaklingum.

Fjarðalistinn vill gera sitt besta til að styðja við samfélagið í gegnum eftirköst faraldursins og vill koma á laggirnar geðræktarmiðstöð í Fjarðabyggð. Ekki þekkja þó allir hvað felst í geðræktarmiðstöð en það er staður þar sem fólk er velkomið, hvort sem það er utan vinnumarkaðar eða ekki. Í samfélaginu okkar býr fólk sem stendur utan vinnumarkaðar af ýmsum ástæðum; vegna aldurs, veikinda, eða barneigna, svo dæmi séu nefnd. Sama hvort fólk er utan vinnumarkaðar tímabundið eða til lengri tíma stæðu dyr geðræktarmiðstövarinnar opnar. Þangað gæti fólk leitað faglegrar aðstoðar ef þörf er á eða bara sótt sér félagsskap og sinnt áhugamálum.

Geðræktarmiðstöð yrði ekki síður forvarnarúrræði en viðbragð við vanda sem er nú þegar í samfélaginu. Ef við hlúum vel að félagstengslum og vellíðan íbúa vonumst við til að færri upplifi vanlíðan og einmanaleika í framtíðinni.

Nauðsynlegt er að geðræktarmiðstöðin verði þróuð í samráði við bæði íbúa og fagfólk. Fjarðabyggð er fjölkjarna samfélag og þarf að skoða möguleikann á að miðstöðin verði færanleg, þar sem húsnæði sveitarfélagins verður nýtt á hverjum stað fyrir sig og fagfólk færir sig á milli kjarna. Með þeim hætti verður hægt að koma til móts við alla íbúa Fjarðabyggðar.

Við erum að koma út úr heimsfaraldri sem haft hefur mikil áhrif á fólk um heim allan og þar er okkar samfélag engin undantekning. Það er því óhætt að segja að sjaldan hefur verið jafn mikilvægt að fólk geti fengið viðeigandi stuðning og nú og þurfum við að gera það sem við getum til að tryggja að íbúar Fjarðabyggðar hafi aðgengi að slíkum stuðningi.

Sverrir Björn Einarsson, sálfræðingur í geðheilsuteymi HSA og á einkastofu.
Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans