Á dögunum afgreiddi bæjarstjórn Fjarðbyggðar fjárhagsáætlun fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun. Vinnan hefur verið flókin og vandasöm við þær aðstæður sem nú eru uppi. Við viljum nota tækifærið og þakka öllum starfsmönnum Fjarðabyggðar og nefndarfólki fyrir sitt mikilvæga framlag í vinnunni við áætlanagerðina. Við þökkum einnig þeim bæjarfulltrúum sem samþykktu fjárhagsáætlunina fyrir að standa þétt saman á þessum krefjandi tímum.

Við erum að takast á við mjög sérstakar og fordæmaslausar aðstæður á tímum heimsfaraldurs sem hefur í för með sér gífurleg efnhagsleg áhrif á íslenskt samfélag. Að auki hefur verið aflabrestur á loðnu tvö ár í röð og óvíst hvort einhverja loðnuveiðar verða heimilaðar á næsta ári. Því er mjög ánægjulegt að við séum að skila fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir hagnaði í rekstri sveitarfélagsins árið 2021. Mörg sveitarfélög á landinu glíma því miður við neikvæða niðurstöðu fjárhagsáætlunar næsta árs. Það er þó ljóst að áfram þarf að leita leiða til að hagræða til að auka svigrúm til fjárfestinga og tryggja sjálfbæran rekstur. Við eigum stöðugt að leita leiða til að nýta skattfé sem best og haga rekstrinum þannig að jákvæð áhrif á lífsgæði íbúa séu hámörkuð.

Þrátt fyrir þrönga fjárhagsstöðu höfum við ákveðið að halda áfram framkvæmdum af miklum krafti og verður hluti þeirra fjármagnaður með lántökum, en lánsfé fæst nú á óvenju hagstæðum kjörum. Stór verkefni á næsta ári verða m.a. bygging nýs íþróttahúss á Reyðarfirði, hafist verður handa við stækkun leikskólans á Eskifirði sem áætlað er að verði lokið árið 2022 og svo áframhaldandi uppbygging á hafnarmannvirkum, sem er gríðarlega mikilvæg fyrir hjól atvinnulífsins. Þessi verkefni miða að því að auka lífsgæði og að gera Fjarðabyggð að enn ákjósanlegri kosti fyrir fólk og fyrirtæki.

Við erum með afgreiðslu þessara fjárhagsáætlunar að svara kalli frá ríkisstjórninni um að sveitarfélög geri sitt besta að halda uppi þjónustustigi og framkvæmdum. Það er mikilvægt að hafa alltaf í huga að atvinna og velferð þurfa á hvort öðru að halda til að stöðuleiki og gott þjónustustig geti haldist í samfélaginu. 

Við höfum á kjörtímabilinu haft velferð og jöfnuð sem sérstakt leiðarljós í allri okkar vinnu og höfum staðið vörð um hag fjölskyldufólks.  Flestar gjaldskrár hafa hækkað undir áætluðum verðlagsbreytingum og launahækkunum samkvæmt kjarasamningum.  Við erum stolt af því að gjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast vel samanburð við önnur sveitarfélög.  Systkinaafslættir og afsláttarkjör vegna frístundaheimila,  leik- og tónlistarskóla eru með því hagstæðasta sem þekkist á landinu. Þá verður framhald á lækkun skólamáltíða í Fjarðabyggð, en máltíð sem kostaði 450 kr. árið 2018 kostar 150 kr. í dag.  Skólamáltíðir í leik- og grunnskólum verða gjaldfrjálsar frá haustinu 2021 sem er gríðarlega mikilvægt skref til að geta boðið öllum börnum okkar upp hollan mat óháð efnahag foreldra, auk þess að spara barnafólki talsverðar upphæðir á hverju ári. Þá hefur mikil áhersla verið lögð á eflingu snemmtækrar íhlutunar með verkefni sem kallast Sprettur. Sprettur gengur út á teymisvinnu fagfólks og foreldra með því markmiði að börn sem lenda í einhverskonar vanda fái sem fyrst viðeigandi aðstoð áður en vandinn dýpkar. Verkefnið fór af stað á þessu ári og höfum við miklar væntingar um að það skili miklum árangri í að fyrirbyggja þjáningar barna og foreldra. Verkefnið mun til lengri tíma einnig skila fjárhagslegum ávinningi.  

Í málefnasamningi meirihluta Fjarðalista og Framsóknarflokks voru skýrar áherslur á velferð og bætt lífsgæði fjölskyldna í Fjarðabyggð. Við teljum okkur ganga vel að vinna að þeim verkefnum og samstarfið hefur gengið mjög vel. Okkur hlakkar til að halda vinnunni áfram og stuðla að því að Fjarðabyggð haldi áfram að vaxa og dafna. Við byggjum á traustum grunni öflugs iðnaðar, fiskveiða og  vinnslu og nú er að vaxa upp ný og stór atvinnugrein, laxeldi, sem mun verða enn ein stoðin undir okkar öfluga samfélag. Við höfum skýra áherslu á að nýta þær góðu tekjur sem þessar greinar færa okkur til að gera samfélagið okkar sem lífvænlegast og stuðla að jöfnuði og velferð fyrir alla íbúa. 

Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Sigurður Ólafsson, formaður bæjarráðs