Þau tíðindi urðu í vikunni að Karl Óttar Pétursson baðst lausnar frá störfum sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Ýmsar kenningar hafa heyrst um ástæður starfslokanna, enda er þetta eitthvað sem ekki hefur áður gerst í sögu hins sameinaða sveitarfélags okkar. Slíkt er þó vel þekkt í sveitarstjórnargeiranum, enda eru störf bæjarstjóra almennt afar flókin, krefjandi og umdeild og það á svo sannarlega við um starf bæjarstjóra Fjarðabyggðar á fyrri hluta kjörtímabils. Við ætlum ekki að ræða stafslok Karls frekar, en viljum undirstrika að þau gerast í góðri sátt og við viljum þakka honum sérstaklega fyrir samstarfið og ánægjuleg kynni.
Eftir samræður við fulltrúa Framsóknarflokksins, félaga okkar í meirihlutanum, komumst við að þeirri niðurstöðu að skipta með okkur verkum með þeim hætti sem þegar hefur verið kynntur og bregðast þannig við þeirri stöðu sem komin var upp. Jón Björn Hákonarson tekur við stöðu bæjarstjóra, Eydís Ásbjörnsdóttir verður forseti bæjarstjórnar, Sigurður Ólafsson formaður bæjarráðs og Pálína Margeirsdóttir varaformaður. Eydís tekur jafnframt við formennsku í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd af Jóni Birni. Við töldum mikilvægt að ganga hratt til verks að ákveða og kynna þessar breytingar, en þær voru samþykktar á bæjarráðsfundi á mánudag og voru afgreidd í bæjarstjórn á fimmtudag.
Við teljum þessa verkaskiptingu vel til þess fallna að tryggja að samfella verði í þeim verkefnum sem útlistuð eru í málefnasamningi meirihlutans, en samstarf Fjarðalista og Framsóknar um þau mál hefur gengið afar vel. Við treystum Jóni Birni vel til að taka við starfi bæjarstjóra. Hann hefur mjög víðtæka reynslu af rekstri og stjórnsýslu Fjarðabyggðar og hefur til að mynda stýrt öllum nefndum nema barnaverndarnefnd í gegnum tíðina. Við óskum Jóni til hamingju með nýja starfið og okkur hlakkar til áframhaldandi samstarfs.
Þetta góða samstarf og traust innan meirihlutans skiptir máli á þeim krefjandi tímum sem augljóslega eru framundan í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Verkefni okkar er að vinna að því að gera gott samfélag enn betra á sama tíma og við sýnum skynsemi og ábyrgð í rekstrinum. Við höfum þegar klárað eða komið í farveg stórum hluta verkefna málefnasamningsins, t.d. mjög mikilvægum verkefnum á sviði fræðslu- og félagsmála. Einnig er fyrirhugað að fara í aðrar mikilvægar framkvæmdir til að bæta þjónustu við íbúa, svo sem byggingu íþróttahúss á Reyðarfirði og stækkun leikskóla á Eskifirði. Eins hefur verið farið í fjölmörg mikilvæg viðhaldsverkefni og fyrirliggjandi eru fleiri slík verkefni sem þola litla bið.
Því hefur verið ákveðið að veita fjármálastjóra heimild til lántöku til að keyra áfram mikilvægar verklegar framkvæmdir og endurfjármagna óhagstæðari lán. Slík lántaka er talin hagkvæmur kostur við þær aðstæður sem nú eru uppi, þótt sumum hugnist eflaust betur að halda að sér höndum, einblína á aðhald og niðurgreiðslu skulda. Við bendum hins vegar á að á krepputímum skiptir máli að ríki og sveitarfélög fari ekki í of grimman niðurskurð og dýpki þar með niðursveifluna, auki atvinnuleysi og rekstrarvanda fyrirtækja. Þetta er eitthvað sem fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins virðist skilja mæta vel, en ríkissjóður verður rekinn með miklum halla á árinu, sem mætt verður með lántökum. Einnig má nefna að stjórnvöld hafa beint þeim tilmælum til sveitarfélaga að halda þjónustustigi og fjárfestingaráætlunum sem mest óbreyttum af fyrrgreindum ástæðum og það eru tilmæli sem Fjarðabyggð, sem öflugt sveitarfélag, getur staðið undir. Skuldastaða Fjarðabyggðar hefur batnað mjög undanfarin ár og ræður sveitarfélagið vel við þær lántökur sem lagðar hafa verið til. Það verður svo að sjálfsögðu markmiðið að rekstur sveitarfélagsins sé með þeim hætti að tekjur standi undir honum og niðurgreiðsla lána haldi áfram samkvæmt áætlun þegar birtir til í efnahagsmálum þjóðarinnar að nýju.
Við höldum því bjartsýn inn í þá krefjandi vinnu sem er framundan og stefnum á að klára kjörtímabilið með sóma og láta verkin tala. Við viljum einnig undirstrika að við erum nú sem fyrr tilbúin til góðs samstarfs á hinu pólitíska sviði sé áhugi á slíku hjá minnihlutanum.
Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Sigurður Ólafsson, formaður bæjarráðs